Það var skrifað í skýin eftir sveitarstjórnarkosningarnar að Dagur B. Eggertsson héldi áfram sem borgarstjóri, þrátt fyrir að flokkur hans hafi tapað verulegu fylgi og þrátt fyrir að meirihluti undir hans forystu hefði fallið í annað skipti í röð. Hægt er að gagnrýna Dag B. Eggertsson borgarstjóra fyrir margt en fáir íslenskir stjórnmálamenn búa yfir sömu hæfileikum og hann til að spila úr þröngri stöðu. Að snúa ósigri í kjörklefanum í sigur við samningaborð margra flokka er ekki gert án klókinda.
Meirihluti borgarstjórnar heldur áfram enda búið að setja enn eitt varadekkið undir. Ekkert breytist – haldið verður áfram á sömu braut og undanfarin ár. Að þessu leyti vita borgarbúar á hverju þeir mega von á. Og þess vegna hefði verið óþarfi að eyða miklum tíma (og peningum) í samstarfssáttmála með litlu innihaldi, miklu orðskrúði og mörgum fallegum orðum.