Fyrir yngra fólk sem gengur að frelsinu sem vísu og telur góð lífskjör sjálfsögð er erfitt að skilja þjóðfélagsbaráttuna sem oft var illvíg, fyrir og eftir síðari heimsstyrjöld. Tekist var á um hugmyndafræði miðstýringar og alræðis annars vegar og athafnafrelsis einstaklinganna hins vegar. Þegar tveir ungir menn frá Sauðárkróki ákváðu að leggjast í víking til Kanada 1954 var flestu í íslensku efnahagslífi handstýrt af stjórnvöldum. Atvinnulífið var fátæklegt og veikburða. Fjármálamarkaður var ekki til og vextir voru ákveðnir af ríkisstjórn. Gengi var mismunandi eftir vörum og svartamarkaður með gjaldeyri var í blóma. Flest var háð leyfum og vöruúrval fátæklegt.