Við eigum enn eftir að átta okkur að fullu á þeim félagslega og efnahagslega kostnaði sem almenningur hefur þurft að greiða vegna heimsfaraldursins og þeirra hörðu sóttvarnaaðgerða sem stjórnvöld hafa gripið til.
Vísbendingar eru orðnar nokkuð skýrar um að lokunarstefna sem flestar þjóðir innleiddu reyndist ekki eins árangursrík og vonir stóðu til. Kannski er mikilvægasti og dýrmætasti lærdómur almennings síðustu misseri sá að beita alltaf gagnrýnni hugsun. Ávinningurinn sem stjórnvöld lofa þegar gengið er á réttindi einstaklinga reynist oftar en ekki tálsýn.