Í skjóli veiklyndis og klofnings Vesturlanda taldi Pútín sér óhætt að leggja til atlögu og ráðast inn í fullvalda ríki. Þegar frjálsar þjóðir verða efnahagslega og pólitískt háðar landi sem stjórnað er af hrotta, sem hefur leikreglur lýðræðis að engu og virðir fullveldi nágrannaríkja að vettugi, eiga þær á hættu að verða berskjaldaðar gagnvart yfirgangi. Leiða má rök að því að Pútín hafi nýtt sér sinnuleysi og fullkomið ábyrgðarleysi þjóða Evrópusambandsins og þá sérstaklega Þýskalands í orkumálum. Kæruleysi og barnaskapur forysturíkja Evrópusambandsins í varnarmálum á síðustu áratugum hefur opinberast með afgerandi hætti eftir innrásina í Úkraínu. Sambandið hefur hvorki hernaðarlega burði né pólitískt þrek til að tryggja varnir aðildarlanda. Öryggi Evrópu og þar með Evrópusambandsins byggist á öflugu varnarsamstarfi Atlantshafsbandalagsins. Lærdómurinn frá hryllingi borgarastríðsins í Bosníu er ekki ofarlega í huga þeirra sem af léttúð telja Evrópusambandið hafa tryggt frið í Evrópu. Þá reyndist Evrópusambandið fullkomlega ófært um að koma á friði í bakgarði sínum. Friður komst ekki á fyrr en Bandaríkin létu til sín taka með bakstuðningi NATÓ.
Það er því í besta falli smekklaust að eins máls flokkar reyndi að nýta sér innrás Rússa í Úkraínu til að boða hina endanlegu og einu lausn allra vandamála; aðild að Evrópusambandinu, með þeim rökstuðningi að verið sé að tryggja varnar- og öryggishagsmuni Íslands. Í þeirri von að loksins rætist draumurinn ESB-aðild er hoppað á vagn hræðsluáróðurs. Einu sinni var það evran sem öllu átti að bjarga hér á landi og nú á Evrópusambandið að tryggja öryggi landsins gagnvart utanaðkomandi ógn.