Eftir að hinni eiginlegu sjálfstæðisbaráttu lauk með stofnun lýðveldisins árið 1944, hafa atvinnufrelsi, réttindi einstaklinga, forræðishyggja og haftakerfi verið þungamiðja í pólitískum átökum hér á landi. Þótt oft hafi gengið hægt að hrinda stefnumálum í framkvæmd hefur hugmyndafræði frjálsræðis hægt og bítandi náð yfirhöndinni þótt á stundum verði bakslag.
Múrar haftabúskapar hrundu ekki af sjálfu sér. Verslunarfrelsi fékkst ekki án átaka. Innflutningsskrifstofa ríkisins, sem útdeildi leyfum til innflutnings, var ekki lögð niður fyrr en í fulla hnefana. Það þurfti margar og ítrekaðar tilraunir til að tryggja frelsi á öldum ljósvakans – afnám einokunar ríkisins á útvarps- og sjónvarpsrekstri mætti harðri andstöðu. Sjálfstæðisflokkurinn einn stóð einhuga að því að leyfa vindum frelsis að leika um útvarp og sjónvarp. Það þurfi einbeittan vilja til að brjóta einokun ríkisins á fjarskiptamarkaði á bak aftur og innleiða samkeppni.
Það er á grunni hugmyndafræði einstaklings- og athafnafrelsis sem einkaaðilar hafa fengið að blómstra innan menntakerfisins; Hjallastefnan, Háskólinn í Reykjavík, Verslunarskólinn, Tækniskólinn svo dæmi séu nefnd. Með því að innleiða fjölbreytni inn í menntakerfið hefur möguleikum ungs fólks verið fjölgað.
Dæmin eru miklu fleiri, stór og smá.
Árið 1988 kom út bókin Þjóð í hafti eftir Jakob F. Ásgeirsson, rithöfund og sagnfræðing. Ég sæki efnivið til þessarar stórmerku bókar sem allir ættu að lesa.