Bogi Ágústsson ræðir um erlend málefni

Episode List

Efnahagsmál og breska samveldið

Sep 14th, 2023 8:30 AM

Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir ræddu að þessu sinni við Boga Ágústsson um stöðu efnahagsmála í Evrópu, verðbólga fer minnkandi, litlum hagvexti er spáð og vextir eru enn háir. Í mörgum Evrópulöndum er skortur á vinnuafli og jafnvel ríkisstjórn Ítalíu undir forsæti Giorgiu Meloni hefur rætt við Afríkuríki að fólk til starfa. Meloni og stjórn hennar eru annars afar andvíg innflutningi fólks. Í Danmörku hefur vinnuveitendasambandið beðið stjórnvöld um að fá 50 þúsund útlendinga til starfa. Meginumræðuefni Heimsgluggans var þó staða Samveldis þjóða, sem áður var þekkt sem breska samveldið. Ástralskur prófessor í breskri sögu við Kaupmannahafnarháskóla segir að samveldið sé í vanda, það sé eiginlega ekki til neins og langt sé síðan að það hafi haft einhverja pólitíska eða efnahagslega þýðingu. Sennilega lifi það þó áfram af því enginn vilji verða til þess að leggja það niður.

Glæpagengi í Svíþjóð, vandræði Ernu Solberg og Take the money and run

Sep 21st, 2023 8:30 AM

Þórunn Elísabet Bogadóttir og Björn Þór Sigbjörnsson ræddu einkum norræn málefni við Boga Ágústsson í Heimsglugga vikunnar á Morgunvakt Rásar 1. Fyrst um ofbeldisölduna í Svíþjóð þar sem 37 hafa verið myrtir í skotárásum á árinu, langflestir í átökum glæpagengja eða innbyrðis uppgjöri eins og í Foxtrott-glæpaklíkunni þessa dagana. Þá var rætt um vandræði norskra stjórnmálamanna, tveir ráðherrar hafa þurft að segja af sér og tveir aðrir eru í vandræðum. Bæði Anniken Hvitfelt, utanríkisráðherra, og Erna Solberg, fyrrverandi forsætisráðherra, eru í vandræðum vegna hlutabréfaviðskipa eiginmanna sinna. Take the Money and Run, hirtu peningana og forðaðu þér, er heiti á listaverki sem danski myndlistamaðurinn Jens Haaning gerði fyrir Kunsten Museum of Modern Art í Álaborg. Safnið sendi listamanninum 538 þúsund danskar krónur í seðlum því listamaðurinn hugðist líma seðlana við strigann á málverkum sem áttu að tákna meðallaun í Danmörku og Austurríki. En Haaning hirti peningana og sendi safninu tvo tóma ramma. Lasse Andersen, forstöðumaður Kunsten, taldi listamanninn hafa brotið samning sem gerður var um verkin. Safnið fór því í mál við Haaning og bæjarréttur Kaupmannahafnar dæmdi í vikunni að listamaðurinn ætti að skila peningunum. Af þessu tilefni lauk Heimsglugganum með lagi Steve Miller Band, Take the Money and Run.

State of Chaos-Ríki í ringulreið Bresk stjórnmál 2016-2023

Sep 28th, 2023 8:30 AM

BBC hefur gert þriggja þátta röð um bresk stjórnmál frá 2016. Mikil upplausn hefur ríkt og fimm forsætisráðherrar hafa verið á sex árum. Laura Kuenssberg, sem var stjórnmálaritstjóri BBC á þessum tíma, fer í gegnum atburðarásina og nefnir þættina State of Chaos sem þýða sem Ríki í ringulreið eða Upplausnarástand. Kuenssberg ræðir við fjölda fólks og dregur upp mynd af því sem gerðist og ekki síður hvað var að gerast á bak við tjöldin. Þórunn Elísabet Bogadóttir og Bogi Ágústsson ræddu þessa þætti í Heimsglugga vikunnar.

Björgun danskra gyðinga

Oct 5th, 2023 8:30 AM

Í Heimsglugganum ræddu Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir við Boga Ágústsson um dramatíska atburði sem gerðust í Danmörku fyrir réttum 80 árum er langflestum gyðingum var bjargað frá handtöku og flutningi í fangabúiðir nasista. Við heyrðum brot úr dönskum sjónvarpsþætti með viðtölum við nokkur þeirra sem upplifðu þessa atburði. Við heyrðum einnig um Hans Walter Rothenborg, sem var 16 ára þegar fjölskylda hans komst yfir Eyrarsund eftir að hafa verið í felum í nokkra daga í Danmörku. Rothenborg giftist seinna Guðrúnu Sigríði Jakobsdóttur, systur Svövu, Jökuls, Þórs og Jóns Einars Jakobsbarna. Daniel Hans Erlendsson, dóttursonur Rothenborgs, ræddi nýlega við afa sinn um þessa atburði og við heyrðum brot úr því viðtali.

Norðurlönd, Eystrasaltsríkin og Visegrád löndin

Oct 12th, 2023 8:30 AM

Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, var gestur Heimsgluggans á Morgunvakt Rásar-1. Bogi Ágústsson ræddi við hann um bók hans sem kom út fyrr á árinu, The Nordic, Baltic and Visegrád Small Powers in Europe. Visegrád ríkin er Pólland, Slóvakía, Tékkland og Ungverland, sem öll voru í Varsjárbandalaginu og leppríki Sovétríkjanna en eru núna í Evrópusambandinu og NATO. Hilmar segir að óttinn við Rússland hafi verið ein meginástæða þess að löndin kusu náinn samruna við Evrópu og samvinnu við Bandaríkin með NATO aðild. Bogi og Hilmar ræddu einkum stöðuna í Austur-Evrópu og Úkraínu.

Get this podcast on your phone, Free

Create Your Podcast In Minutes

  • Full-featured podcast site
  • Unlimited storage and bandwidth
  • Comprehensive podcast stats
  • Distribute to Apple Podcasts, Spotify, and more
  • Make money with your podcast
Get Started
It is Free